Forráðamenn Barcelona leita allra leiða til að safna peningum og eru nú farnir að selja grasið af gamla heimavelli sínum.
Barcelona glímir við mikinn skuldavanda og þarf því að afla sér tekna.
Verið er að taka Nou Camp heimavöll félagsins í gegn og getur Barcelona ekki spilað á heimavelli fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár.
Búið er að taka upp grasið á Nou Camp og stuðningsmenn félagsins geta nú fest kaup á grasinu af þessum sögufræga velli.
Lítill bútur af grasinu kostar frá 8 þúsund krónum og upp í tæpar 50 þúsund krónur en það fer allt eftir því í hvernig öskju grasið kemur.
Hægt er að fá það í plastboxi en einnig í líkani af Nou Camp vellinum og kostar það væna summu.