Stórtíðindi af Kylian Mbappe birtust í frönskum fjölmiðlum í gær en þar kom fram að kappinn hafi náð samkomulagi við Real Madrid um að ganga frítt til liðs við félagið næsta sumar.
Það er Foot Mercato sem greinir frá þessu en Mbappe hefur stöðugt verið orðaður við Real Madrid undanfarin ár.
Hann hafnaði félaginu 2022 og skrifaði þess í stað undir nýjan tveggja ára samning við PSG. Sá samningur er að renna út í sumar og skrifi Mbappe ekki undir nýjan getur hann farið frítt.