Dominik Szoboszlai, leikmaður Liverpool, mun missa af næstu tveimur leikjum liðsins hið minnsta. Jurgen Klopp staðfesti þetta á blaðamannafundi.
Szoboszlai fór meiddur af velli í sigrinum gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á dögunum og nú er ljóst að hann missir af stórleiknum við Arsenal á sunnudag í enska bikarnum og leiknum gegn Fulham í enska deildabikarnum í næstu viku
„Hann er meiddur aftan á læri. Hann er mjög jákvæður og er ekki mjög illt en við tökum enga sénsa á sunnudag og ekki heldur á miðvikudag. Svo sjáum við til,“ sagði Klopp.
Szoboszlai gekk í raðir Liverpool í sumar og hefur skorað fjögur mörk og lagt upp þrjú í öllum keppnum.