Mason Greenwood var rekinn af velli í leik Getafe gegn Rayo Vallecano í La Liga í gær. Fékk hann rauða spjaldið eftir orðaskipti við dómara leiksins en stjóri Getafe segir hann ekki hafa móðgað neinn.
Getafe tapaði 2-0 í gær en endaði leikinn þremur mönnum færri. Greenwood var annar leikmaðurinn til að vera rekinn út af og var það á 50. mínútu.
Englendingurinn ungi var pirraður á hversu oft hafði verið brotið á honum og í myndavélunum virtist hann segja „farðu til fjandans (e. fuck off)“ við dómarann.
Jose Bordalas, stjóri Getafe, segir svo ekki vera.
„Hann sagði „ekki láta svona við mig (e. don’t fuck with me),“ bara það. Þetta var pirringur en hann móðgaði engan.“
Greenwood hefur verið mikið í umræðunni en hann er orðaður við Barcelona og Atletico Madrid þessa dagana eftir flotta frammistöðu á láni hjá Getafe frá Manchester United.