Rooney tók við Birmingham í haust og þá var liðið í sjötta sæti ensku B-deildarinnar. Var John Eustace mjög óvænt rekinn til að koma Rooney að.
Undir stjórn Rooney vann Birmingham aðeins tvo af fimmtán leikjum sínum og situr nú í 20. sæti.
Rooney var því rekinn en hér má sjá lista yfir störf sem hann gæti tekið við.
Salford City
Félagið er í eigu fyrrum liðsfélaga hans hjá Manchester United, þeirra Nicky Butt, David Beckham, Paul Scholes, Ryan Giggs, Gary Neville og Phil Neville. Liðið er í D-deild með stóra drauma en hefur ekki tekist að koma sér ofar.
Inter Miami
Beckham á Inter Miami einnig og Lionel Messi og fleiri stjörnur spila með liðinu. Gerardo Martino er að gera ansi góða hluti með Inter Miami og ólíklegt að hann fari í bráð. Beckham hefur hins vegar áður ráðið fyrrum liðsfélaga, Phil Neville og vilji hann gera það aftur gæti Rooney reynst kostur.
Sádi-Arabía
Sádar vilja halda áfram að sanka að sér stjörnum í deild sína, bæði leikmönnum og knattspyrnustjórum. Það myndi því án efa freista þeirra að fá mann á borð við Rooney í deildina.
Enska landsliðið
Mjög langsótt en Gareth Southgate er líklega á förum eftir EM næsta sumar. Rooney hefur mikla reynslu af landsliðsbolta frá árum sínum sem leikmaður en það verður að teljast ólíklegt að hann yrði ráðinn landsliðsþjálfari í bráð.
Manchester United
Einnig langsótt en sæti Erik ten Hag er heitt og United hefur áður ráðið fyrrum leikmann sem átti eftir að sanna sig í þjálfun, Ole Gunnar Solskjær.