Spænska stórliðið Atletico Madrid hefur spurst fyrir um Mason Greenwood, leikmann Getafe sem er á láni frá Manchester United. Marca segir frá þessu.
Greenwood gekk í raðir Getafe í sumar en hann er ekki talinn eiga framtíð hjá United.
Englendingurinn ungi hefur heillað í La Liga og er kominn með þrjú mörk og fjórar stoðsendingar í fjórtán leikjum til þessa.
Greenwood hefur verið sterklega orðaður við Barcelona en miðað við nýjustu fréttir þarf að taka Atletico alvarlega í kapphlaupinu um hann.
Æðstu menn hjá Barcelona vilja ólmir fá Greenwood til sín og hafa verið fréttir um það að þeir séu meira að segja til í að láta hann hafa sögufrægu treyju númer 10 hjá félaginu.
Í byrjun þessa árs voru mál gegn Greenwood látin niður falla en hann var sakaður um gróft ofbeldi gegn kærustu sinni – og nú barnsmóður – Harriet Robson. Málið var látið niður falla í kjölfar þess að lykilvitni dró sig til hlés.