Tottenham 2 – 1 Liverpool
1-0 Heung-Min Son(’36)
1-1 Cody Gakpo(’45)
2-1 Joel Matip(’96, sjálfsmark)
Það fór fram stórleikur í ensku úrvalsdeildinni í kvöld er Tottenham fékk lið Liverpool í heimsókn.
Um var að ræða ansi fjörugan leik en gestirnir frá Liverpool enduðu á því að spila með níu menn á vellinum.
Curtis Jones fékk að líta beint rautt spjald á 26. mínútu og stuttu síðar kom Heung-Min Son liði Tottenham yfir.
Fyrir það hafði Luis Diaz skorað fyrir Liverpool en það mark var dæmt af vegna rangstöðu og var sá dómur afar umdeildur.
Liverpool tókst að jafna metin með tíu menn en Cody Gakpo skoraði stuttu fyrir lok fyrri hálfleiks og allt jafnt í leikhlé.
Liverpool fékk svo annað rautt spjald á 69. mínútu er Diogo Jota var sendur í sturtu með tvö gul spjöld.
Annar umdeildur dómur átti sér þar stað en margir vilja meina að fyrra gula spjald Jota hafi ekki verið verðskuldað.
Allt stefndi í jafntefli í þessum leik en í blálokin skoraði Joel Matip sjálfsmark til að tryggja heimamönnum sigur í mjög umdeildum knattspyrnuleik.