Eftir frábært EM með íslenska U19 ára landsliðinu var mikill áhugi á Eggerti erlendis frá en hann hélt kyrru fyrir í Stjörnunni.
„Það er engin ein leið rétt í því en ég held klárlega að þetta hafi verið skynsamlegt hjá honum. Eftir EM með U19 kom kafli þar sem var mikið umtal um hann og þá hefði verið auðvelt að taka ákvörðun í flýti,“ sagði Viktor í Þungavigtinni þar sem Eggert var til umræðu.
„Ég held að það hafi klárlega verið rétt skref að vera áfram í Stjörnunni og halda áfram að spila vel. Þá getur hann fengið enn stærra tækifæri eftir tímabil.“
Viktor er handviss um að Eggert endi í atvinnumennsku en segir að það megi ekki vanmeta þá reynslu sem hann fær á því að spila hér heima.
„Hann er frábær leikmaður og er með eiginleika sem ekkert margir eru með. Það er erfitt að klukka hann og hann er fljótur á fyrstu metrunum.
Það má ekkert vanmeta það að vera í klúbb þar sem þér líður vel. Hann er að spila vel og fær traust frá Stjörnunni. Ef Stjarnan fer til dæmis í Evrópu núna held ég að það sé ekkert vitlaust að taka annað tímabil hér.“