Neymar neitar fregnum um að hann sé ósáttur hjá Al Hilal og að hann hafi farið fram á að stjóri liðsins yrði rekinn.
Brasilíumaðurinn gekk í raðir Al Hilal frá Paris Saint-Germain í sumar og þénar ótrúlegar upphæðir í Sádí.
Í gær var sagt frá því í spænskum miðlum að hann væri ósáttur og þá sérstaklega við stjórann, Jorge Jesus.
Neymar og Jesus tókust á eftir leik Al Hilal gegn Navbahor Namangan í Meistaradeild Asíu á dögunum en stjórinn var ósáttur við viðhorf Neymar á vellinum.
Í kjölfarið var sagt frá því að Neymar hafi rætt við æðstu menn Al Hilal og farið fram á brottrekstur Jesus.
„Lygar. Þið verðið að hætta að trúa svona hlutum. Og svona síður með allar þessar milljónir fylgjenda verða að hætta að dreifa svona falsfréttum. Ég bið ykkur um að hætta þessu. Þetta er mikil óvirðing,“ skrifar Neymar á samfélagsmiðla.