Neymar er sagður ósáttur við fyrstu vikur sínar hjá sádiarabíska félaginu Al Hilal og vill hann jafnframt að stjóri liðsins verði rekinn. Spænski miðillinn Sport fjallar um málið.
Brasilíumaðurinn gekk í raðir Al Hilal frá Paris Saint-Germain í sumar og þénar ótrúlegar upphæðir í Sádí.
Hann er þó eitthvað ósáttur þessa stundina og þá sérstaklega við stjórann, Jorge Jesus.
Neymar og Jesus tókust á eftir leik Al Hilal gegn Navbahor Namangan í Meistaradeild Asíu á dögunum en stjórinn var ósáttur við viðhorf Neymar á vellinum.
Þetta hefur alls ekki farið vel í Neymar og nú er því haldið fram að hann hafi rætt við æðstu menn Al Hilal og beðið þá um að reka Jesus.
Hvort þeir verði við þessu á eftir að koma í ljós.