Karim Benzema hefur verið einn besti framherji heims undanfarin ár. Hann hefur hins vegar oft komið sér í vandræði utan vallar. Sögur af leikmanninum voru rifjaðar upp í The Upshot.
Benzema komst í franska landsliðið aðeins tvítugur. Hann var þar með goðsögnum á borð við Thierry Henry en virti þá lítið, sagði enn fremur að hann væri mættur til að taka sæti þeirra í liðinu.
Hann sótti reglulega vændishús í París með félögum sínum úr franska landsliðinu, Franck Ribery og Hatem Ben Arfa. Þar voru þeir mest með konu að nafni Zahia Dehar. Ribery lét meira að segja fljúga henni heim til sín þar sem hann bjó í Munchen í eitt skiptið sem afmælisgjöf.
Árið 2010, eftir að Benzema var genginn í raðir Real Madrid, lentu þremenningarnir í vandræðum. Lögregla ruddist inn á vændishúsið umrædda í París og upp komst um þá. Kom í ljós að Dehar var aðeins 16 ára gömul á þeim tíma sem leikmennirnir stunduðu með henni kynlíf.
Benzema fékk ekki að fara með franska landsliðinu á HM út af þessu. Jafnframt var hann kærður en það tók hann fjögur ár að hreinsa nafn sitt. Þeir héldu því ávalt fram að hafa ekki vitað hversu gömul Dehar var.
Einhverjir hefðu haldið að þarna myndi Benzema láta fara hægt um sig en svo var heldur betur ekki. Árið 2015 tók hann þátt í öðru hneyksli með æskuvini sínum Karim Zaneti. Sá ætlaði að fjárkúga liðsfélaga Benzema úr franska landsliðinu, Mathieu Valbuena, þar sem hann hafði undir höndum kynlífsmyndband af honum.
„Ekki hafa áhyggjur, hann mun borga,“ heyrðist Benzema segja á myndbandi.
Í landslisðsferð Frakklands fór Benzema til Valbuena seint um kvöld og hvatti hann til að borga þeim sem voru að fjárkúga hann. „Farðu varlega, þetta eru hættulegir glæpamenn,“ sagði framherjinn.
Valbuena neitaði hins vegar að borga og fór þess í stað til lögreglu. Málið ratar í alla fjölmiðla og er Benzema á ný hent úr landsliðshópnum fyrir EM 2016.
Benzema hefur einnig komið sér í vanda hjá félagsliði. Árið 2020 náðist hann á myndband segja liðsfélögum sínum í Real Madrid að senda ekki boltann á Vinicius Junior, hann væri að spila gegn þeim.
Árið 2021 var Benzema ákærður fyrir að fjárkúga Valbuena. Hann fékk árs skilorðbundinn fangelsisdóm en fékk þó að snúa aftur í franska landsliðið.