Einar og Þórir komu báðir upp í gegnum yngri flokka Keflavíkur en Willum var þjálfari þeirra í meistaraflokki 2010 og 2011.
Einar rifjar í þættinum upp þegar hann og Magnús voru að rífast á æfingu. Willum fór áhugaverða leið til að leysa ágreininginn.
„Við Magnús erum mjög góðir vinir en ég hef ekki hótað því að lemja eða drepa neinn mann jafnoft á æfingum og hann. Þegar hann fer í mig með þessari rödd sinni verð ég alveg brjálaður,“ segir Einar léttur í þættinum.
„Við vorum samherjar á æfingu. Það var tekist svakalega á og ég var að fara að lemja hann. Willum stoppaði þetta allt og vildi leysa þetta þannig að við myndum leiðast og hlaupa einn hring og ræða okkar mál á meðan.“
Menn tóku misvel í þetta athæfi Willums.
„Ég man að mér fannst þetta fyndið en Magnús var alveg brjálaður yfir þessu, það væri óboðlegt að láta sig gera þetta,“ segir Einar.