Ný auglýsing fyrir Bestu deildina var frumsýnd í dag en það er fyrrum atvinnu- og landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson sem sá um að leikstýra henni.
Auglýsing deildarinnar á síðasta tímabili, sem var einnig unnin undir leikstjórn Hannesar, sló rækilega í gegn og ætla má að nýja auglýsingin muni gera slíkt hið sama.
„Þetta er með skemmtilegri en erfiðari verkefnum sem ég tek að mér,“ sagði Hannes Þór á kynningarfundi Bestu deildar karla í dag. „Þetta er algjör skipulagsmartröð sem þarf að púsla saman en ég vil meina að það sé kraftaverk að ekki þurfi að bíða lengur eftir þessari auglýsingu,“ bætti hann við og átti þá við ansi þétta dagskrá liðanna núna í aðdraganda komandi tímabils.
Hannes á kynningarfundi Bestu deildarinnar í dag / Mynd: Torg/Valli
Hannes segir það meðvitaða ákvörðun hjá framleiðendum auglýsingarinnar að fara með hana í aðra átt en var raunin fyrir síðasta tímabil.
„Við ákváðum að fara aðeins aðra leið í ár sem reynir ekki alveg eins mikið á leikhæfileika leikmanna og þjálfara þó svo að flestir hafi staðist það í fyrra.“