Kim Min-Jae, leikmaður Bayern Munchen, upplifði ekki góða tíma til að byrja með eftir að hafa flutt til Þýskalands.
Kim var seldur til Bayern í sumarglugganum og hefur spilað vel en hann var áður leikmaður Napoli.
Bild í Þýskalandi greinir frá því að Kim hafi verið rændur stuttu eftir komu til landsins er hann var að flytja inn í sitt eigið hús.
Á meðan Kim var að flytja inn var hlutum rænt fyrir utan eignina en hann var sjálfur ekki viðstaddur.
Talað er um að rándýrum hrísgrjónapott hafi til að mynda verið stolið en Kim borðar mikið af hrísgrjónum og treystir mikið á það tæki.
Bild segir að Kim hafi ekki verið lengi að kíkja í næstu verslun og keypt sér nýjan pott en þjófurinn hefur enn ekki fundist.