Guðlaugur Victor Pálsson ræddi við Stöð 2 Sport eftir leik við Portúgal í kvöld en Ísland tapaði 2-0 á útivelli.
Um var að ræða gríðarlega erfitt verkefni en Portúgal er eitt besta landslið heims og spilaði íslenska vörnin fínan leik.
Guðlaugur Victor var ánægður með vörn íslenska liðsins í leiknum og kom því á framfæri í viðtali eftir leik.
,,Mér fannst þetta vera mjög fínt, við vörðumst vel og vorum compact og lögðum leikinn svona upp að vera í þessari blokk. Þetta var svipað og við gerðum heima, við töpuðum en betra en fyrir nokkrum dögum,“ sagði Guðlaugur Victor.
,,Þetta er bara það sem passar vel fyrir okkur, að vera í 4-4-2, að vera með þessi gildi og vera compact og vinna saman, þetta er bara okkar leið þegar kemur að varnarleiknum. Við fáum alltaf eitthvað hálffæri, eitt skot í endann en ef við náum að mastera þetta og spila í núllið þá er stig í boði. Við þurfum að halda í það sem við erum góðir í.“
,,Við börðumst eins og lið, vorum saman sem lið og vörðumst ógeðslega vel. Þetta er íslenska leiðin.“