Heung Min Son, leikmaður Tottenham, hefur staðfest það að hann þurfi í raun á hvíld að halda þar sem hann finnur fyrir sársauka í leikjum þessa dagana.
Son staðfesti þetta eftir leik Suður-Kóreu við Singapore í undankeppni HM en hans menn unnu 5-0 sigur.
Son er einn allra mikilvægasti leikmaður Tottenham og fær litla hvíld og þarf liðið á honum að halda í hverri viku.
Framherjinn viðurkennir þó að hann sé ekki heill heilsu en svo lengi sem hann getur hlaupið þá gefur hann allt í verkefnið.
,,Við erum að búa til lið sem vill spila á HM. Ég get ekki gefist upp bara því ég finn fyrir sársauka,“ sagði Son.
,,Ef ég get ekki hlaupið þá er ekkert sem ég get gert en ef ég get hlaupið þá þarf ég að gefa 100 prósent í verkefnið.“
,,Það eru allir sem spila leiki og þurfa að þjást á einhverjum tímapunkti.“