Það eru ágætis líkur á því að Kylian Mbappe, leikmaður PSG, sé fúll eftir ummæli þjálfara síns, Luis Enrique, um helgina.
Enrique og hans menn unnu öruggan sigur gegn Reims í frönsku deildinni þar sem Mbappe skoraði öll mörkin og setti þrennu.
Þrátt fyrir það var Enrique ósáttur með frammistöðu franska landsliðsmannsins og heimtar mun meira frá honum innan vallar.
,,Ég er ekki ánægður með Kylian Mbappe. Ég hef ekkert að segja um mörkin sem hann skoraði,“ sagði Enrique.
,,Hann getur hjálpað liðinu á meira en einn hátt. Ég mun ræða þetta við hann en þetta verður á milli mín og hans.“
,,Við erum að tala um einn besta leikmann heims en við heimtum meira. Við viljum sjá hann gera meira.“