Þetta kemur fram í Bakverði hans í helgarblaði Morgunblaðsins. Þar er staða kvennalandsliðsins tekin fyrir.
Liðið spilaði tvo landsleiki hér heima í Þjóðadeildinni á dögunum, gegn Dönum og Þjóðverjum. Báðir töpuðust, 0-1 gegn Dönum og 0-2 gegn Þjóðverjum.
„Ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, sé mögulega í erfiðasta þjálfarastarfinu á Íslandi í dag. Landsliðsþjálfarinn stendur frammi fyrir því erfiða verkefni að þurfa að skila úrslitum í hús, en á sama tíma er líka gerð ákveðin krafa um það að liðið spili skemmtilegan, áferðarfallegan fótbolta þar sem liðið getur haldið boltanum innan liðsins. Það að vinna 1:0 er ekki lengur talið gott og gilt ef frammistaðan er ekki sannfærandi,“ skrifar Bjarni.
Eins og margir hafa haft orð á mátti sjá bætingu á frammistöðu Íslands í leikjunum gegn Dönum og Þjóðverjum ef tekið er mið af leikjunum þar á undan.
„Frammistaðan var samt sem áður ásættanleg en á sama undirstrikaði hún hversu langt við erum á eftir bestu knattspyrnuþjóðum heims og til að hafa það hugfast þá er Danmörk einungis tveimur sætum fyrir ofan okkur á heimslistanum.
Stemningin í kringum liðið er því miður líka við frostmark. 1.245 áhorfendur á landsleik á Laugardalsvelli á þriðjudegi. Þar af voru 245 þeirra örugglega þýskir. Það er ekkert eðlilega sorglegt. 1.712 mættu á leikinn við Dani,“ skrifar Bjarni einnig.
Ísland mætir Wales ytra í næsta leik Þjóðadeildarinnar þann 1. desember og er sá leikur mikilvægur upp á að halda sér í A-deild.