Erik ten Hag, stjóri Manchester United, skilur ekkert í því af hverju Bruno Fernandes hefur fengið svo mikla gagnrýni á tímabilinu.
Bruno hefur ekki átt sitt besta tímabil hingað til en það sama má segja um flest alla leikmenn enska stórliðsins.
Portúgalinn var hetja Man Utd í gær sem mætti Fulham og skoraði eina mark liðsins í uppbótartíma í 1-0 sigri.
Ten Hag segir að það sé ekki rétt að gagnrýna fyrirliða liðsins sem leggur sig mikið fram í hverri viðureign.
,,Ég skil ekki þessa gagnrýni. Allir gera mistök og það er enginn fullkominn, hann gerir mjög góða hluti,“ sagði Ten Hag.
,,Hann sýnir það í hverjum leik af hverju hann er með fyrirliðabandið. Þið sáuð vinnusemina í dag, hvernig hann pressaði og svo skoraði hann mark. Hann er gríðarlega mikilvægur.“