Manchester United goðösgnin Rio Ferdinand er algjörlega ósammála því að Erik ten Hag, stjóri liðsins, eigi að taka fyrirliðabandið af Bruno Fernandes eins og önnur goðsögn félagsins, Roy Keane stakk upp á.
Bálreiður Keane sagði eftir 0-3 tap United gegn City um helgina að Fernandes væri ekkert efni í fyrirliða og að það ætti að taka það af honum. Ferdinand hefur svarað þessum ummælum.
„Hver er þarna sem gæti tekið við því?“ spyr Ferdinand.
„Það er algjör klikkun að segja þetta. Stærstu vandamál Erik ten Hag hafa verið þau sem eiga sér stað utan vallar. Ætlarðu að búa til annað vandamál með því að taka af honum fyrirliðabandið.
Sjáið bara hvaða áhrif það hafði þegar fyrirliðabandið var tekið af Harry Maguire. Þetta eru stórar ákvarðanir. Það yrði ekki rétt ákvörðun að taka bandið af Bruno Fernandes.“