Darron Gibson, fyrrum leikmaður Manchester United, hefur opnað sig um erfitt vandamál sem hann glímdi við fyrir ekki svo mörgum árum.
Gibson átti flottan feril sem fótboltamaður en eftir að skórnir fóru á hilluna varð hann háður svefntöflum og glímdi lengi við það vandamál.
Fíknin varð svo mikil að Gibson endaði á spítala en hann segist hafa tekið 12 til 14 töflur á hverju einasta kvöldi.
Í dag er fyrrum miðjumaðurinn á betri stað en hann lagði skóna á hilluna fyrir rúmlega tveimur árum.
,,Ef ég hefði haldið þessu áfram þá væri ég látinn í dag, “ sagði Gibson í viðtali við the 42.
,,Ég var varla á lífi á þessum tímapunkti. Ég sé gamlar myndir af mér, ég var grár á litinn. Þetta hefði drepið mig.“
,,Ég tók 12 til 14 svefntöflur á hverju kvöldi. Ég var keyrður á sjúkrahús en vildi ekki opna mig um fíknina. Konan mín vissi að ég tæki töflurnar en áttaði sig ekki á hversu alvarleg fíknin var. Ég var mjög góður í að fela vandamálið.“