Stjarnan er að ræða við Emil Atlason um nýjan samning, málefni hans er í vinnslu samkvæmt Helga Hrannarri Jónssyni formanni meistaraflokksráðs hjá Stjörnunni.
„Þessi mál eru bara í vinnslu,“ segir Helgi Hrannarr í samtali við 433.is í dag.
Emil var markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar í sumar en hann hefur átt afar góðu gengi að fagna í Garðabænum síðustu árin.
Markaskorarinn öflugi hefur verið sterklega orðaður við Íslands og bikarmeistara Víkings sem hafa áhuga á að krækja í Emil sé það möguleiki.
Hann er hins vegar samningsbundinn Stjörnunni út næstu leiktíð en samkvæmt heimildum 433.is vill hann fá verulega launahækkun á núverandi samningi sínum í Garðabæ.
Emil er þrítugur sóknarmaður sem hefur meðal annars spilað fyrir KR, Þrótt og HK hér á landi.