Áhyggjur eru vegna mætingar á leiki í sádiarabísku deildinni í ár þrátt fyrir að fjöldi stórstjarna hafi mætt í deildina í sumar.
Hver stjarnan á fætur annarri hefur farið úr Evrópuboltanum í ár. Má þar nefna Cristiano Ronaldo, Neymar og Karim Benzema sem örfá dæmi.
Það eru þó aðeins 8470 manns sem mæta að meðaltali á leiki og eru dæmi um að ekki einu sinni þúsund manns mæti á einhverja leiki.
Sem dæmi voru aðeins 696 manns á leik Al Ettifaq og Al Riyadh um helgina þrátt fyrir að Jordan Henderson sé í fyrrnefnda liðinu og Steven Gerrard þjálfi það.
Til samanburðar mættu 21552 manns á leik Bradford og Wrexham í ensku D-deildinni um helgina.
Ljóst er að þarna þurfa Sádar að spýta í.