Ivan Toney, framherji Brentford, ætlar sér í stærra félag innan Englands í janúar.
Sem stendur er Englendingurinn í banni frá knattspyrnu vegna brota á veðmálareglum. Hann snýr aftur í janúar en þá ætlar hann sér hins vegar að söðla um.
Arsenal hefur hvað helst verið í umræðunni um næsta áfangastað Toney en hann vill vera innan Englands. Skytturnar gætu farið í framherjaleit í janúar.
Nú segir félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano frá því að það muni þurfa um 65 milljónir punda til að landa Toney.
Núgildandi samningur Toney rennur út árið 2025. Hann hefur verið hjá Brentford síðan 2020 og skorað 68 mörk fyrir félagið í 124 leikjum.