Aaron Ramsdale, markmaður Arsenal, hefur tjáð sig um föður sinn sem lét í sér heyra á samskiptamiðlum fyrr í mánuðinum.
Ramsdale eldri gagnrýndi þar sparkspekinginn Jamie Carragher sem hafði skotið skotum að markmanninum sem er á dag í bekknum hjá Arsenal.
Carragher gagnrýndi Ramsdale fyrir að klappa fyrir vörslu David Raya í leik gegn Tottenham en sá síðarnefndi er í dag aðalmarkvörður Arsenal eftir að hafa komið í sumar.
Ramsdale segist einfaldlega vera góður liðsfélagi og að hann hafi ekki verið með neinn leikþátt fyrir framan myndavélarnar.
Faðir Ramsdale var staddur á Spáni er hann sá ummæli Carragher og hafði engin góð orð að segja um þennan fyrrum enska landsliðsmann.
,,Þú ert til skammar, sýndu smá virðingu, sonur minn hefur gert það!“ skrifaði Ramsdale eldri í skilaboðum til Carragher.
Markmaðurinn hefur nú tjáð sig um hegðun föður síns og segist ekki vera reiður í hans garð.
,,Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjölmiðlar fjalla um mig, ég hef þurft að þagga niður í neikvæðninni áður,“ sagði Ramsdale yngri.
,,Það sem pabbi gerði hjálpaði mér ekki en hann var á Spáni í golfi með 19 félögum sínum! Verum hreinskilin, ég var ekki reiður út í hann, hann sagði ekkert rangt en hjálpaði ekki stöðunni.“
,,Hann vissi það sjálfur, hann hafði fengið sér aðeins of marga bjóra í golfinu. Ég veit að það er mikið talað um mína stöðu en það hefur engin áhrif á mig.“