David Raya gekk í raðir Arsenal í sumar frá Brentford og búast flestir við því að hann verði aðalmarkvörður næstu árin. Hann veitti þó athyglisverð svör í nýju viðtali.
Spænski markvörðurinn kom til Arsenal á láni á 3 milljónir punda en Arsenal hefur val um að kaupa hann á 27 milljónir punda næsta sumar.
Raya hefur þegar tekið byrjunarliðssætið af Aaron Ramsdale sem hefur átt stöðuna undanfarin tvö tímabil.
„Ég vil ekki tala um framtíðina. En fullkominn endir væri að vinna titil með Arsenal og fá kallið í spænska landsliðið fyrir EM,“ segir Raya.
Þá var hann spurður að því hvort hann vildi spila í La Liga, efstu deild í heimalandinu.
„Ég væri auðvitað til í það. En sem stendur er ég hjá Arsenal. Ég er mjög ánægður en við sjáum hvað gerist á næstu árum.“
Enskir miðlar fjalla um þessi ummæli en þau þykja athyglisverð í ljósi þess að hann er nýmættur til Arsenal.