Martin Ödegaard, leikmaður Arsenal, viðurkennir að hann hafi mögulega skrifað undir hjá stórliði Real Madrid of snemma.
Ödegaard er 24 ára gamall í dag en hann skrifaði fyrst undir hjá Real er hann var aðeins 16 ára gamall.
Norðmaðurinn hafði vakið gríðarlega athygli í Noregi þrátt fyrir ungan aldur en náði aldrei almennilegu flugi á Spáni.
Ödegaard sér ekki beint eftir ákvörðuninni en hann er í dag hjá Arsenal og er fyrirliði liðsins í ensku úrvalsdeildinni.
,,Ég átti mjög góða tíma í Madríd þó einhverjir gætu verið ósammála. Ég lærði mikið, þroskaðist mikið og æfði með bestu leikmönnum heims,“ sagði Ödegaard.
,,Að lokum var það best fyrir mig að kveðja, ég vildi fá að spila meira og halda áfram að þróa minn leik. Ég spilaði með Real og naut þess. Kannski tók ég skrefið of snemma.“