Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Lyngby segist hafa verið hársbreidd frá því að skrifa undir hjá Val í Bestu deild karla.
Gylfi æfði með Val í sumar en ákvað á endanum að semja við Lyngby í Danmörku.
Gylfi ræðir málið í viðtali við Guðmund Benediktsson sem birtist á Vísir.is. „Jú jú, viðræður voru komnar langt við Val en það varð ekkert úr því. Viðræðurnar voru á þeim forsendum að ef það kæmi eitthvað spennandi að utan þá hefði ég möguleikann á að fara. Það var það sem ég var að bíða eftir,“ segir Gylfi.
Gylfi segir að því miður fyrir Val þá hafi Freyr Alexandersson hringt.
„Það voru mörg lið hér heima sem höfðu samband. Mig langaði bara að koma mér í betra form áður en ég tæki ákvörðun. Því miður fyrir Val þá hringdi Freysi.“
Gylfi er í fyrsta sinn í íslenska landsliðshópnum í tæp þrjú ár og gæti spilað gegn Lúxemborg á morgun.