Real Madrid hefur ákveðið að reka þjálfarann Adria Diaz úr starfi en hann samdi við félagið fyrir aðeins þremur mánuðum.
Ástæðan ku vera virkilega sérstök en Diaz starfaði sem þjálfari U17 liðs Real í þrjá mánuði.
Fyrir það var Diaz á mála hjá Barcelona eða frá 2015 til 2019 og er mikill stuðningsmaður þess félags.
Það er mikill rígur á milli Barcelona og Real og komst það síðarnefnda að bréfi sem Diaz hafði sent sínu fyrrum félagi.
Diaz sendi hjartnæmt opinbert bréf til Barcelona þar sem hann þakkaði félaginu fyrir stuðning á erfiðum tímum en móðir hans greindist með krabbamein árið 2017.
Real tók víst afskaplega illa í þetta bréf og hefur verið harðlega gagnrýnt vegna þess – aðrir miðlar vilja þó meina að Diaz hafi sjálfur stigið til hliðar.
Athletic segir að Real harðneiti þessum sögusögnum en aðrir miðlar á Spáni fullyrða að bréfið sé ástæðan fyrir uppsögninni.