Dan Burn, leikmaður Newcastle, hafði engan áhuga á því að fá treyju stórstjörnunnar Kylian Mbappe í vikunni.
Newcastle gerði sér lítið fyrir og vann 4-1 sigur á Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni – úrslit sem komu mörgum á óvart.
Burn er enginn risaaðdáandi Mbappe en hann á þrjár treyjur sem eru frá Peter Crouch, fyrrum leikmanni Liverpool og Tottenham, Per Mertesacker, fyrrum leikmanni Arsenal og Wayne Routledge sem lék einnig með Tottenham um tíma.
Það er nóg fyrir þennan stóra og stæðilega varnarmann en margir myndu eflaust biðja Mbappe um treyjuna ef þeir fá tækifærið á að mæta honum innan vallar.
,,Þetta snýst um treyjurnar núna, þú getur farið á YouTube og séð á móti hverjum þú hefur spilað,“ sagði Burn.
,,Ég hef aldrei beðið neinn um treyju, ég er ekki með neitt safn. Ég er með treyjur frá Peter Crouch, Per Mertesacker og Wayne Routledge.“
,,Það eru einu treyjurnar sem ég á og ég er ánægður með það – ég þarf að ramma þær inn og hengja upp!“