Gengið hefur verið frá ráðningu John Henry Andrews, sem þjálfara kvennaliðs Víkings til næstu tveggja ára.
Af sama tilefni var greint frá því að Kristófer Sigurgeirsson kæmi inn sem aðstoðarþjálfari hans og yrði í fullu starfi.
„Kristófer kemur nýr inn í þjálfarateymi liðsins, sem sendir með því skýr skilaboð um að hvergi er slegið af á þeirri leið sem mörkuð hefur verið til frekari afreka. Kristófer kemur til liðsins frá Breiðablik þar sem hann lét af störfum ásamt aðalþjálfara liðsins á liðnu sumri. Kristófer býr yfir mikilli reynslu sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs á hæsta „leveli“, en jafnframt og ekki síður af reynslu sem aðalþjálfari karlaliða Reynis í Sandgerði og Leiknis og sem aðstoðarþjálfari HK, Fjölnis og Vals. Auk töluverðrar reynslu af þjálfun yngri flokka kvenna,“ segir í yfirlýsingu Víkings.
John á glæstan feril með liðinu en tók við því í kjölfar slita á áralöngu samstarfi við HK haustið 2019. Á þeim tíma var liðið á ákveðnum byrjunarreit, enda hafði liðlega helmingur leikmanna HK/Víkings gengið til liðs við HK og fjöldi annarra horfið á braut. John hóf þá markvisst uppbyggingarstarf sem hefur með sigri í Lengjudeildinni nú skilað liðinu upp í Bestu deild. Hann var nálægt því takmarki fyrir ári en mætir nú til leiks með töluvert reynslumeira lið, sem sýndi það í sumar að það á fullt erindi á meðal þeirra bestu.
John hefur þegar skipað sér á bekk með sigursælustu þjálfurum kvennaliðs Víkings og forvera þess. Þó samanburður á árangri geti verið erfiður þegar lið flakka á milli deilda, þá segir 73% sigurhlutfall í leikjum liðins árs sína sögu, þar með taldir eru leikir liðsins á móti liðum úr Bestu deildinni á leið til sigurs í Mjólkurbikarnum 2023.