Toni Kroos, leikmaður Real Madrid, hefur skotið föstum skotum á leikmenn sem ákváðu að skrifa undir í Sádi Arabíu í sumar.
Margir leikmenn gengu í raðir liða í efstu deild þar í landi og fá mun hærri laun en í Evrópuboltanum.
Kroos skilur að hluta til að eldri leikmenn færi sig til landsins eins og Cristiano Ronaldo sem er hans fyrrum samherji í Real Madrid.
Þjóðverjinn er þó ekki hrifinn af því að yngri leikmenn séu að skrifa undir í Sádi Arabíu og að það tengist aðeins peningum og engu öðru.
,,Allir þurfa að taka bestu ákvörðun fyrir sjálfa sig eins og Cristiano Ronaldo sem ákvað að taka skrefið undir lok ferilsins,“ sagði Kroos.
,,Það er þó mjög erfitt þegar leikmenn sem geta spilað fyrir topplið í Evrópu ákveða að gera það sama. Það er talað um að þetta sé vegna metnaðarins en að lokum snýst þetta um peninginn.“
,,Það er ekki það sem fótboltinn snýst um og er erfitt fyrir íþróttina sem við öll þekkjum og elskum.“