Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby segist hafa verið vongóður í nokkrum tíma um að Gylfi Þór Sigurðsson yrði leikmaður félagsins. Hann segist þó ekki hafa fagnað neinu fyrr en Gylfi skrifað undir hjá danska félaginu í dag.
Endurkoma Gylfa á fótboltavöllinn nálgast en hann skrifaði í dag undir eins árs samning við Lyngby sem leikur í efstu deild þar í landi. Líklegt er að Gylfi spili sinn fyrsta leik fyrir félagið seinnipartinn í september.
„Fyrst og fremst ótrúlega skemmtilegt að Lyngby og Gylfi hafi fundið flöt saman fyrir báða aðila, þetta hefur þær afleiðingar að það verður gríðarleg athygli á félaginu. Gylfi er stórstjarna, það er langt síðan að stórstjarna hefur komið til Lyngby,“ segir Freyr í samtali við 433.is en viðtalið má hlusta á hér að neðan.
Freyr segir að Gylfi þurfi sinn tíma til að komast í form eftir um tvö ár frá leiknum. „Næstu vikurnar hefur það ekki nein áhrif innan vallar, hann kemur ekki inn á völlinn alveg strax. Í nánustu framtíð mun þetta hafa mjög góð áhrif á samherja hans í Lyngby og vonandi nær hann að fá gleðina og njóta þess að spila fótbolta aftur.“
„Það er svolítið erfitt að gefa tímaramma, við vonumst til að sjá hann á vellinum í september. Hann fékk meiðsli undir fótinn sem erfit er að meðhöndla en það gengur rosalega vel. Eins og staðan er núna og heldur svona áfram. þá leikur hann fyrsta leikinn í september.“
Gylfi hefur verið hjá Lyngby í rúma viku þar sem hann hefur farið í allskonar próf og hefur lagt mikið á sig til þess að koma sér aftur á völlinn.
„Hann er ekki búin að æfa með liðinu, hann hefur æft með styrktarþjálfara og og sjúkraþjálfara. Hann er búinn að vinna eins og brjálæðingur, sex tíma á dag í líkamlegri þjálfun og meðhöndlun, eins og Gylfa er einum lagið. Hann hefur gert þetta framar vonum, hann byrjar að æfa á vellinum á morgun en lítið með liðinu fyrr en í lok næst viku.“
„Hann er í mjög góðu líkamlegu standi, kemur vel út úr öllum prófum. Hann hefur alltaf hugsað vel um sig, við vinnum faglega með honum. Hann fer í gegnum undirbúningstímabil næstu vikurnar og svo komum við honum í leikform.“
Freyr Alexandersson heyrði í Gylfa fyrir þremur mánuðum og lét vita af áhuga félagsins, síðan þá hafa málin þróast áfram og gengið hratt fyrir sig síðustu daga.
„Það er komnir þrír mánuðir síðan við byrjuðum að tala saman, það var að finna réttan tímapunkt og hvort þetta passaði fyrir báða aðila. Þegar við ákváðum að láta reyna á þetta, þá gekk þetta mjög hratt.“
Þeir sem starfað hafa í kringum Frey tala um hann sem ótrúlegan sölumann, hann getur fengið alla til að trúa á þá hluti sem hann predikar.
„Ég veit ekki hvort ég sé besti sölumaður í heimi. Ég reyni að vera heiðarlegur, ég er samt alltaf jafn hissa þegar það gengur ekki upp að fá leikmenn. Ég var alltaf jafn vongóður, það plan sem ég talaði við um Gylfa og það sem Gylfi sagði við mig pössuðu vel saman. Ég var vongóður því ég vissi að launalega hliðin var ekki faktor í þessu, hann fær auðvitað borgað fyrir sína vinnu en vissi rammann sem við höfðum. Það tók fimm mínútur, þá var ég vongóður. Maður vissi aldrei, ég var ekki orðinn glaður nema þegar hann skrifaði undir og fór í treyjuna í dag.“
Alfreð Finnbogason yfirgaf Lyngby á dögunum en Freyr óttaðist að það gæti haft áhrif á komu Gylfa.
„Ég er ennþá svekktur því það gekk svo vel, það er svo gaman að vinna með honum og hann var elskaður í klúbbnum. Það hefði verið gaman fyrir Gylfa og Alfreð spila saman. Það var kannski það sem ég hafði mestar áhyggjur af þegar ég hringdi í Gylfa og sagði honum að Alfreð væri að fara, að hann myndi hætta við. Þar sýndi hann hversu flottur náungi, hann hefði gjarnan viljað spila með Alfreð en það hafði enginn lokaáhrif.“
Viðtalið við Frey má heyra í heild í spilaranum hér að ofan.