„Maður er að reyna að taka þetta inn og þetta er auðvitað ólýsanleg tilfinning,“ sagði Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks, eftir 1-0 sigur á Struga í kvöld.
Liðin voru að mætast í seinni leik í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Blikar unnu fyrri leikinn 0-1 ytra og niðurstaðan varð sú sama í kvöld.
Það var Viktor sem skoraði einmitt sigurmarkið snemma leiks. „Ég ætla ekki að ljúga að það var mjög góð tilfinning að sjá hann í netinu,“ sagði hann um markið.
Viktor segir tilfinninguna að komast í riðlakeppni ólýsanlega, en Blikar eru fyrsta íslenska karlaliðið sem nær því.
„Við erum búnir að mynda sterkan kjarna, ganga í gegnum hæðir og lægðir og það er ekkert eins og þetta.“
Hvort er stærra, þetta eða að verða Íslandsmeistari í fyrra?
„Þetta er mjög ólíkt en bæði geggjað. Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft sé þetta aðeins stærra.“
Ítarlega er rætt við Viktor hér að neðan.