Mohamed Salah hefur verið orðaður við Al Ittihad í Sádi-Arabíu undanfarið. Jurgen Klopp stjóri Liverpool stendur fastur á sínu og segir leikmanninn ekki á förum.
Egyptinn var fyrir helgi sagður hafa fengið risatilboð frá Sádí sem myndi gera hann launahærri en Cristiano Ronaldo, sem er auðvitað á mála hjá Al Nassr.
Salah var sjálfur talinn áhugasamur um boðið. Liverpool segir leikmanninn þó ekki til sölu og spilaði hann í sigrinum á Newcastle í gær.
Eftir leik var Klopp spurður af blaðamanni út í málið.
„Sagan um Mo Salah til Al Ittihad er ekki alveg horfin, er það?“ spurði blaðamaðurinn.
„Fyrir mér er hún það!“ svaraði Klopp ákveðinn.
Miðað við þetta mun Salah ekki elta peningana til Sádí þetta sumarið.