Íþróttavikan hefur göngu sína á nýjan leik nú í kvöld en þáttinn má nálgast hér á vefnum og í Sjónvarpi Símans með því að velja Hringbraut og svo Íþróttavikuna.
Fyrsti gesturinn þennan veturinn er Arnar Daði Arnarson, sérfræðingur íslensku þjóðarinnar þegar kemur að handboltanum.
Arnar upplýsir í þættinum um það að Sjónvarp Símans verði heimili handboltans á næsta tímabili en Stöð2 Sport hefur gert frábærlega með handboltann síðustu ár.
„Klárlega, maður var í kringum Stöð2 Sport og það trúði því enginn að handboltinn færi. Þegar leið á tímabilið að þá fann maður að það var eitthvað gruggugt. Það virtist sem svo að Stöð2 hafi ekki haft efni á að hafa handboltann áfram, það er enginn eðlilegur kostnaður við eina útsendingu,“ segir Arnar Daði sem var stór hluti af teyminu hjá Stöð2 Sport og afar vinsæll á meðal áhorfenda.
„Þetta er dýrt batterí, ein útsending kostar 4 eða 5 milljónir. Stöð2 hefur viljað gera þetta ógeðslega vel en höfðu ekki efni á því,“ segir Arnar og segir það virðingarvert að fyrirtæki fari ekki út í hluti sem ekki eru til peningar fyrir.
Arnar upplýsir svo þjóðina um það að handboltinn verði með heimili hjá Símanum í vetur og líklega mun hinn vinsæli hlaðvarpsþáttur, Handkastið fara aftur í loftið.
„Það er verið að bíða eftir fréttamannafundi hjá HSÍ, fyrir fólk sem er heima þá getur fólk horft á handboltann á Sjónvarpi Símans í vetur. Það verður einn leikur í opinni dagskrá á fimmtudögum, á sama tíma og Stöð2 Sport er með körfubolta í lokaðri dagskrá er handboltinn í opinni dagskrá. Svo verður handbolta rás þar sem fólk getur keypt áskrift að hinum leikjunum á 1290 krónur á mánuði. Þar getur séð yngri flokka leikja, næst efstu deild og þar verða allir leikir þar. Félögin lýsa leikjunum, það verður enginn Seinni Bylgja eða umfjöllunar þáttur,“ segir Arnar.