Ivan Toney, framherji Brentford, stefnir enn hærra á knattspyrnuferlinum og vill spila fyrir eitt af stærstu liðum Englands. Hann greinir frá þessu í nýju viðtali.
Leikmaðurinn er nú í löngu banni frá fótbolta eftir að hafa gerst sekur um fjölda brota á veðmálareglum. Hann snýr aftur í janúar.
Toney er þó hvergi af baki dottinn og var spurður út í framtíð sína og hvort hann gæti farið í annað lið.
„Allir vilja spila á hæsta stigi, ekki að Brentford sé ekki þar heldur langar alla að spila fyrir stóru liðin og berjast um titla,“ segir Toney.
„Ef ég fer þarf næsta lið að vera það rétta fyrir mig. Ég hef auðvitað verið stuðningsmaður Liverpool allt mitt líf. Ég hef alltaf kunnað vel við Arsenal vegna leikstílsins og hversu ástríðufulla stuðningsmenn félagið á.“
Toney var einnig spurður út í Manchester United.
„Mér líkaði alltaf við að horfa á United þegar Dimitar Berbatov var þar,“ segir Toney sem er mikill aðdáandi fyrrum búlgarska sóknarmannsins.