Everton hefur lagt fram tilboð á bilinu 15-20 milljónir punda í Anthony Elanga, leikmann Manchester United. BBC segir frá þessu.
Hinn 21 árs gamli Elanga var nálægt því að fara á láni til Everton á síðustu leiktíð en ekkert varð af því. Nú gæti hann hins vegar verið seldur þangað.
Elanga spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið United 2021, en hann kom upp í gegnum unglingastarf félagsins.
Síðan hann kom inn í aðalliðið hefur Svíinn skorað fjögur mörk í 55 leikjum en honum mistókst að skora í 26 leikjum á síðustu leiktíð.
United eyddi nýverið 60 milljónum punda í Mason Mount frá Chelsea. Þá vill félagið fá markvörð og framherja.
Það gæti þurft að selja leikmenn á móti og er Elanga hugsanlega á förum til Everton.