Stjörnurnar í ensku úrvalsdeildinni eru nú smátt og smátt að snúa aftur eftir sumarfríið. Undirbúningstímabilið er að hefjast.
Enska götublaðið Daily Star tók saman hvað nokkrir leikmenn hafa verið að bralla í fríinu.
Erling Braut Haaland
Haaland hefur notið vel í fríinu eftir að hafa skorað 52 mörk fyrir Manchester City á sinni fyrstu leiktíð.
Undanfarið hefur hann verið með kærustu sinni, Isabel Johansen, á St. Tropez. Þau hafa notið sólarinnar og stundað vatnsíþróttir.
Þá fóru þau einnig til Ítalíu.
Jordan Pickford
Jordan Pickford er staddur í Portúgal með eiginkonu sinni Megan.
Þau höfðu engin smá tíðindi að færa á dögunum þegar þau tilkynntu að þau ættu von á sínu öðru barni.
Hamingjuóskum hefur rignt yfir hjónin síðan.
Victor Lindelöf
Sænski miðvörðurinn hefur undanfarið verið í Suður-Frakklandi með eignkonu sinni Maju.
Það er ekki eini áfangastaður þeirra hjóna í sumar því þau fóru einnig til Mykonos á Grikklandi.
Scott McTominay
McTominay og kærasta hans Cam Reading hafa heldur betur haft það náðugt á St. Tropez.
Hafa þau farið á bát og eytt miklum tíma á ströndinni.
Marcus Rashford
Rashford er einhleypur í fríinu eftir að slitnaði upp úr sambandi hans við kærustu til langs tíma.
Sóknarmaðurinn virðist samt hafa það fínt er hann slakar á fyrir komandi leiktíð með Manchester United.
Jack Grealish
Það skal engan undra að Grealish hefur tekið vel á því frá því Manchester City vann þrennuna í vor.
Grealish hefur skemmt sér í Las Vegas, Suður-Frakklandi og á Ibiza.