Edwin Van der Sar er ekki lengur haldið sofandi og líðan hans er stöðug og hann er ekki í lífshættu. Frá þessu greinir eiginkona hans í færslu til fjölmiðla.
Van der Sar var lagður inn á sjúkrahús um helgina vegna blæðingar inn á heila.
Hollendingurinn, sem gerði garðinn frægan á leikmannaferlinum með Manhcester United og Ajax, er staddur í fríi í Króatíu og var fluttur með þyrlu á sjúkrahús.
„Edwin er áfram á gjörgæslu en líðan hans er stöðug,“ segir Annemarie van der Sar.
„Hann er ekki í lífshættu, í hvert skipti sem við heimsækjum hann þá á hann í samskiptum við okkur. Við verðum að bíða róleg eftir því að sjá hvernig málið þróast.“
Van der Sar er 52 ára gamall og hefur starfað í yfirstjórn Ajax síðustu ár með góðum árangri.