Afturelding er komin með 5 stiga forskot á toppi Lengjudeildar karla eftir sigur á Fjölni í toppslag síðustu umferðarinnar. Læirsveinar Magnúsar Más Einarssonar voru til umræðu í nýjasta þætti Lengjudeildarmarkanna.
Mosfellingar hafa verið afar heillandi og ekki tapað leik enn þá. Hrafnkell Freyr Ágústsson sérfræðingur var spurður að því í nýjasta þætti Lengjudeildarmarkanna hvort Afturelding gæti einfaldlega stungið af.
„Já. Þessir heimaleikir sem þeir fengu ekki í byrjun hafa verið að detta inn og þeir hafa verið að spila fáránlega vel á heimavelli,“ svaraði Hrafnkell.
„Ég þreytist ekki á að mæra Oliver Bjerrum Jensen. Hann er ótrúlega góður og stjórnar hverjum einasta leik. Og á meðan Ásgeir Marteinsson, Elmar (Kári Enesson Gogic) og Arnór Gauti (Ragnarsson) eru allir heilir á sama tíma sé ég lítið stoppa þá.“