Það hefur lítið gengið upp hjá Grindavík undanfarið í Lengjudeild karla. Staða liðsins var tekin fyrir í nýjasta þætti Lengjudeildarmarkanna hér á 433 og í Sjónvarpi Símans.
Grindvíkingar hafa aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum í Lengjudeildinni og einn af sex í öllum keppnum. Í síðustu umferð tapaði liðið óvænt gegn nýliðum Þróttar R. á heimavelli, 1-2.
„Hvað er að hjá Grindavík þessa stundina?“ spurði þáttastjórnandinn Helgi Fannar Sigurðsson í Lengjudeildarmörkunum.
„Þeir liggja til baka og reyna að breika en eru ekki nægilega góðir í því. Þeir hörkuðu sig í gegnum fyrstu leikina en svo þegar þeir eiga að vera með boltann og stjórna leikjum, þá er ekkert plan. Það er hellingur af leikmönnum sem eru góðir í fótbolta þarna en þeir eru ekki nógu góðir sem lið,“ svaraði sérfræðingurinn Hrafnkell Freyr Ágústsson.
Helgi tók til máls á ný. „Til að koma Helga Sig (þjálfara Grindavíkur) til varnar finnst mér stundum vera einbeitingarleysi hjá leikmönnum og eins og það hreinlega skorti einhvern vilja.“
Hrafnkell var hins vegar ekki til í að gefa þjálfaranum neinn afslátt.
„Ég held að ábyrgðin sé alltaf á þjálfaranum. Hann á að vera leiðtoginn, stjórna taktískum æfingum, peppi fyrir leik og öllu þessu. Hann verður að taka eitthvað á sig því þetta er bara ekki nógu gott.“