Viðræður Liverpool og RB Leipzig vegna Dominik Szoboszlai eru langt á veg komnar. Virtir blaðamenn á borð við David Ornstein og Fabrizio Romano greina frá þessu.
Hinn 22 ára gamli Szoboszlai hefur verið orðaður við Liverpool undanfarna daga og virðast skiptin ætla að ganga í gegn.
Ekki er vitað á þessari stundu hvað Liverpool greiðir Leipzig fyrir sóknarsinnaða miðjumanninn en hann er með klásúlu upp á um 60 milljónir punda í samningi sínum í Þýskalandi.
Viðræður á milli Leipzig og Liverpool eru á lokastigi.
Szoboszlai, sem við Íslendingar þekkjum allt of vel frá umspilsleik okkar um sæti á EM við Ungverja árið 2020, skoraði tíu mörk í 48 leikjum fyrir Leipzig á síðustu leiktíð.