Fyrr í dag var greint frá því að Bayern Munchen væri búið að bjóða í Harry Kane, framherja Tottenham. Samkvæmt fréttum frá Þýskalandi hefur leikmaðurinn þegar samið við Bayern um sín kjör.
Það var hinn virti miðill The Athletic sem greindi frá því í dag að Bayern hefði boðið rúmar 60 milljónir punda fyrir Kane.
Kane á aðeins ár eftir af samningi sínum við Tottenham og hefur ekki gerst líklegur til að framlengja hann. Hann getur því farið frítt næsta sumar. Kappinn hefur mikið verið orðaður við Manchester United.
Samkvæmt Sky Sports í Þýskalandi hefur Tottenham þegar hafnað tilboði Bayern, en félagið vill 100 milljónir punda fyrir leikmanninn þrátt fyrir stöðuna á samningi hans.
Bild segir að Kane hafi þegar samið munnlega um sín kjör við Bayern og sé því til í að fara til Þýskalands.
Kane hefur raðað inn mörkum fyrir Tottenham undanfarinn áratug eða svo en nú gæti hann verið á förum.