KR tók á móti KA í Bestu deild karla um helgina og vann mikilvægan sigur. Fjölmiðlamaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason var hins vegar ekki hrifinn af mætingu KR-inga á leikinn, sem fór fram í Vesturbænum.
Heimamenn unnu 2-0 sigur í leiknum og sitja nú í sjöunda sæti með 15 stig.
„Ég hélt að þetta væri eitthvað grín þegar ég horfði upp í stúku en svo var ekki. Ég ætla að giska að það hafi ekki verið mikið meira en 150 manns á leiknum,“ sagði Ríkharð gáttaður í nýjasta þætti Þungavigtarinnar.
Mikael Nikulásson var með honum í þættinum og vildi meina að mætingin hafi ekki verið eins slæm og Ríkharð hélt fram.
„Það var alveg slatti í stúkunni og líka hinum megin, þú sérð það bara ekki.“
Nákvæmur áhorfendafjöldi er ekki gefinn upp í leikskýrslu KSÍ frá leiknum.