Cody Gakpo lék á miðjunni fyrir Liverpool í sigri liðsins á Brentford í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Liðið vann 1-0 og heldur í von um að ná Meistaradeildarsæti, sérstaklega eftir tap Manchester United gegn West Ham í gær.
Gakpo gekk í raðir Liverpool frá PSV í janúar fyrir 35 milljónir punda. Hefur hann skorað sex mörk og lagt upp tvö hingað til, en Hollendingurinn hefur leikið í stöðu fremsta manns sem og vinstra megin í þriggja manna framlínu að mestu.
Á laugardag byrjaði Gakpo hins vegar neðar á vellinum og var hægra megin á miðju sem innihélt einnig Fabinho og Curtis Jones.
Þótti hann standa sig afar vel. Eru það afar jákvæðar fréttir fyrir Liverpool sem hefur verið í miklum vandræðum á leiktíðinni, sérstaklega á miðjunni.
Því er þá velt upp í enskum miðlum hvað fjölhæfni Gakpo gæti þýtt fyrir sumarglugga Liverpool.
Naby Keita, Alex Oxlade-Chamberlain og James Milner eru allir á förum. Það er því alveg ljóst að Jurgen Klopp nær í miðjumann í sumar.
Alexis Mac Allister er talinn líklegur til að koma á Anfield frá Brighton en það verður líklega ekki nóg.
Það er óljóst hvort Klopp sjái Gakpo sem mann sem getur leyst reglulega af á miðjunni eða hvort þetta hafi einungis verið til að brúa bilið í einum leik á meðan mikil vandræði eru með miðjumenn.
Sjái Klopp Gakpo sem sóknarmann til frambúðar eru allar líkur á að Liverpool fái fleiri en einn miðjumann í sumar.
Því hefur einnig verið velt upp hvort Trent Alexander-Arnold geti að einhverju leyti leyst miðjuvandræði Liverpool. Hann hefur verið að draga sig innar á völlinn í stöðu bakvarðar og heillað í því hlutverki.