Það er útlit fyrir að Youssouf Fofana, miðjumaður Monaco, verði eftirsóttur í sumar.
Um er að ræða 24 ára gamlan Frakka sem er fastamaður á miðjunni hjá Monaco. Hefur hann heillað á þessari leiktíð í frönsku úrvalsdeildinni, þar sem Monaco er í fjórða sæti.
Chelsea og Liverpool fylgjast með gangi mála hjá Fofana. Þetta herma heimildir breska miðilsins Daily Mail.
Fofana þykir afar góður kostur þar sem samningur hans við Monaco rennur út eftir aðeins rúmt ár.
Það er því talið að hann sé fáanlegur fyrir aðeins um 22 milljónir punda.
Liverpool bráðvantar að styrkja miðsvæði sitt og þá leitar Chelsea að lausnum fyrir sumarið eftir skelfilega leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.
Fofana, sem á að baki níu A-landsleiki fyrir hönd Frakklands, gæti því verið á leið til Englands.