Barcelona þarf að selja vel af leikmönnum í sumar ef pláss á að skapast fyrir Lionel Messi. Þetta segir forseti La Liga, spænsku deildarinnar.
Það er ljóst að Messi er á förum frá Paris Saint-Germain þegar samningur hans rennur út í sumar. Messi var í vikunni settur í tveggja vikna bann af PSG. Hann hafði skrópað á æfingu og slakað á í Sádi-Arabíu. Christophe Galtier, þjálfari liðsins, hefur viljað taka á agavandamálum félagsins og að setja Messi í bann er hluti af því.
Galtier hafði boðað frí frá æfingu á mánudag en tap gegn Lorient varð til þess að hann setti á æfingu, þá var Messi í Sádí Arabíu og komst ekki til baka. Talið er að Argentínumaðurinn gæti þénað yfir þrjá milljarða á ári fyrir að auglýsa Sádi-Arabíu. Inni í samningi hans við landið er ferð þangað að minnsta kosti einu sinni á ári.
„Ef Barca fær Lionel Messi munu laun hans lækka frá því sem hann er með hjá Paris Saint-Germain,“ segir Tebas.
Börsungar hafa verið í fjárhagsvandræðum.
„Endurkoma hans veltur á því hvort félagið nái að selja leikmenn. Ég tel að Barca muni fá góða upphæð fyrir að selja leikmenn í sumar.“