KSÍ hefur lokið að gera upp við Arnar Þór Viðarsson, fyrrum landsliðsþjálfara knattspyrnusambandsins. Þetta staðfestir Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ í samtali við 433.is.
KSÍ ákvað að reka Arnar Þór úr í starfi í mars eftir rúm tvö ár í starfi landsliðsþjálfara. Hinn norski, Age Hareide var ráðinn í hans stað.
Samkvæmt heimildum átti Arnar Þór rétt á launum langt fram á næsta ár. Má því reikna með að KSÍ hafi þurft að reiða fram tug milljóna greiðslu til Arnars.
„Já þeim er lokið,“ segir Vanda í skriflegri fyrirspurn 433.is um það hvort uppgjöri við Arnar sé lokið.
Arnar Þór hefur haldið til í Belgíu frá því að hann var rekinn úr starfi en hann hefur hingað til ekki viljað tjá sig um málið og þá ákvörðun KSÍ að reka hann eftir stærsta sigur í sögu Íslands. Var síðasti leikur Arnars við stjórnvölin, 7-0 sigur á Liechtenstein.