Kasper Schmeichel, markvörður Nice og danska landsliðsins, hrósar David De Gea í hástert og telur að spænski markvörðurinn verði áfram hjá Manchester United.
Samningur De Gea er að renna út og ekki hefur gengið að endursemja hingað til. Kappinn hefur verið á mála hjá United síðan 2011 og er launahæsti leikmaður liðsins með 375 þúsund pund á viku.
De Gea hefur verið harðlega gagnrýndur af mörgum stuðningsmönnum United og sparkspekingum undanfarið en Schmeichel tekur ekki undir með þeim.
„Mér finnst þeir eiga magnaðan markvörð. Ekki nóg með það, hann hefur verið magnaður þjónn fyrir félagið,“ segir Daninn, sem lék með Leicester um árabil og varð Englandsmeistari með liðinu 2016.
Kasper Schmeichel er sonur Peter Schmeichel, fyrrum markvarðar United og goðsagnar innan félagsins.
„Að vera svona lengi hjá nokkru félagi er mjög erfitt. En að vera númer eitt hjá félagi á stærð við Manchester United er ótrúlegt afrek og það ber að virða.“
Schmeichel bendir á að De Gea sé að venjast nýju hlutverki undir stjórn Erik ten Hag.
„Hann hefur verið beðinn um að spila allt öðruvísi á þessu tímabili. Sumt hefur farið úrskeiðis en annað gengið mjög vel. Mér finnst hann spila mjög vel með fótunum einnig. Það efast enginn um hvað hann er góður að verja því hann er ótrúlegur í því.“
Schmeichel telur að De Gea og United muni koma sér saman um nýjan samning leikmannsins.
„Manchester United spyr sig örugglega hvað mun kosta að fylla hans skarð. Það myndi kosta norðan af 60 milljónum punda en þú ert þegar með markvörð sem er í heimsklassa og virðist til í að vera áfram. Ég held því að aðilarnir muni semja.“